Innlent

Fjárlaganefnd brýnir niðurskurðarhnífinn

Fjárlaganefnd Alþingis bíður nú eftir skilaboðum ríkisstjórnar um hversu stórfelldan niðurskurð þurfi á ríkisrekstrinum til að grynnka á hrikalegum hallarekstri. Á sama tíma er biðstofa nefndarinnar þéttsetin af fulltrúum stofnana og samtaka að biðja um meiri pening.

Á hverjum morgni bíða talsmenn hinna ýmsu stofnana og félaga eftir áheyrn fjárlaganefndar Alþingis. Ásóknin er svo mikil að nefndin hefur skipt sér í þrennt til að hafa undan við að hlusta á rök fyrir nauðsyn framlaga í hin ólíkustu verkefni, eins og hér um könnun á hagkvæmni léttlesta. Annar hluti þingnefndarinnar hlýddi á sama tíma á ósk um framlög til líknarfélags. Hætt er við að flestir fái þvert nei því fjármálaráðherra hefur sent út þau tilmæli að engin ný verkefni skuli samþykkt og önnur skorin niður um tíu prósent.

Jón Bjarnason, fulltrúi vinstri grænna í fjárlaganefnd, segir ótækt að fara í slíkan flatan niðurskurð. Það verði verkefni fjárlaganefndar að forgangsraða. Velferðarkerfið, menntunin, heilbrigðiskerfið og atvinnuskapandi verkefni, þetta þarf að verja, segir Jón. Formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, er sama sinnis, og telur það ekki óskhyggju að standa vörð um þessa málaflokka. Það sé vilji þingsins og þjóðarinnar.

Það er vitað að hallinn stefnir yfir hundrað milljarða króna, sumir telja hann fara yfir 150 milljarða. Þessa tölu þarf fjárlaganefndin að fá á hreint með væntanlegri þjóðhagssá, svo menn viti hversu harkalega þurfi að stíga á bremsuna. Hversu stórt sem fjárlagagatið verður þá blasa við sársaukafullar aðgerðir að brúa það, jafnt skattahækkanir sem niðurskurður, - aðgerðir sem gætu reynt verulega á stjórnarsamstarfið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×