Innlent

Segir Samfylkinguna setja Íslandsmet í óábyrgum málflutningi

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, mælti fyrir vantrauststillögu á ríkisstjórnina við upphaf þingfundar klukkan hálftvö í dag. Hann benti á nýlega skoðanakönnun Fréttablaðsins sem bendir til þess að einungis þriðjungur treysti ríkisstjórninni. Hann sagði að ríkisstjórninni hefði verið afskaplega mislagðar hendur að undanförnu.

Hann sagði að vantrauststillagan væri sett með ábyrgum hætti því tími myndi gefast til til að afgreiða fjárlög og nokkur aðdragandi gæfist til að undirbúa kosningar. Hann gagnrýndi þann málflutning ríkisstjórnarinnar að ekki mætti kjósa núna því að miðjar björgunaraðgerðir stæðu yfir. Staðreyndin væri sú að það væru tvö eða þrjú erfið ár framundan.

Þá sagði Steingrímur að ríkisstjórnin væri sundurþykk og gagnrýndi hana fyrir það. Hann gagnrýndi jafnframt Samfylkinguna fyrir óábyrgan málflutning. Þrátt fyrir að samfylkingarmenn teldu krónuna ónýta og vildu bankastjórn Seðlabankans burt stæðu þeir jafnframt að því að fá lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem Seðlabankinn myndi bera ábyrgð á. Steingrímur sagði að þetta væri trúlega Íslandsmet ef ekki heimsmet í óábyrgum málflutningi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×