Enski boltinn

Jafnt hjá Arsenal og Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Howard Webb sendir hér Adebayor af velli.
Howard Webb sendir hér Adebayor af velli. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool gerði sitt þriðja jafntefli í síðustu fjórum leikjum sínum er liðið náði 1-1 jafntefli gegn Arsenal á útivelli í dag.

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Chelsea getur því komist á topp deildarinnar með sigri á Everton á útivelli á morgun en Liverpool heldur toppsætinu enn um sinn.

Arsenal er þó enn í fimmta sæti deildarinnar með 31 stig og er enn átta stigum á eftir toppliði Liverpool.

Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik og voru einkar lagleg. Fyrst kom Robin van Persie Arsenal yfir og svo jafnaði Robbie Keane metin fyrir Liverpool.

Emmanuel Adebayor fékk svo að líta rauða spjaldið í upphafi síðari hálfleiks er hann fékk sitt annað gula spjald en Arsenal náði þó að halda fengnum hlut.

Samir Nasri kom inn í byrjunarlið Arsenal fyrir Abou Diaby og hann lagði upp markið fyrir van Persie. Nasri gaf langa sendingu inn á teig sem van Persie tók vel á móti og skoraði með góðu skoti úr erfiðri stöðu.

Diaby kom svo inn á í hálfleik fyrir Cesc Fabregas sem hafði meiðst.

Fjórar breytingar voru gerðar á byrjunarliði Liverpool frá síðasta leik. Lucas Leiva, Emiliano Insua, Robbie Keane og Daniel Agger komu inn fyrir þá Hyypia, Mascherano, Dossena og Benayoun.

Og það var einmitt Keane sem nýtti tækifæri sitt vel. Hann tímasetti hlaup sitt hárrétt og stakk sér inn fyrir vörn Arsenal eftir langa sendingu frá Agger. Hann náði glæsilegu skoti að marki sem var óverjandi fyrir Manuel Almunia.

Stuttu síðar fékk Steven Gerrard frábær tækifæri til að koma Liverpool yfir en honum brást bogalistin af stuttu færi eftir fyrirgjöf Dirk Kuyt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×