Enski boltinn

Scudamore: Knattspyrnan lifir af kreppuna

NordicPhotos/GettyImages

Richard Scudamore, yfirmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, segist ekki óttast að kreppuástandið í heiminum í dag eigi eftir að knésetja deildina.

Í samtali við Sky fréttastofuna sagði Scudamore að rekstur knattspyrnufélagag í úrvalsdeildinni stæði undir sér og benti á að stærstu knattspyrnufélögin á Englandi ættu miklar eignir og fengju reglulega innkomu.

Hann hefur því ekki áhyggjur af því að skuldsett félög á Englandi muni riða til falls, þó vissulega gætu þau átt eftir að finna fyrir kreppunni líkt og önnur fyrirtæki.

Því hefur verið haldið fram að ensku félögin skuldi þrjá milljarða punda.

Í sama viðtali var Scudamore líka spurður út í hugmyndir sem settar hafa verið fram um að koma á launaþaki í ensku knattspyrnunni, en sagði ómögulegt að koma því við og benti á að hugmyndin hefði verið rædd síðustu tíu ár án niðurstöðu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×