Íslenski boltinn

Arnar: Frábær afmælisgjöf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Breiðablik vann sinn fyrsta sigur í Landsbankadeildinni í kvöld þegar þeir lögðu KR-inga 2-1 í Vesturbænum. Blikar höfðu gert tvö jafntefli í fyrstu tveimur umferðunum.

„Þetta var kærkominn sigur. Við vorum búnir að spila misvel í fyrstu tveimur umferðunum, spiluðum vel upp á Skaga en hrikalega illa á móti Þrótti. Það var því kærkomið að taka fyrstu þrjú stigin í Vesturbænum," sagði Arnar Grétarsson, fyrirliði Breiðabliks eftir leik.

„Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik þar sem við fengum fín færi og hefðum því getað farið inn með stærri mun í hálfleik og gert hlutina því auðveldari fyrir okkur. Við settum upp seinni hálfleikinn síðan upp með því að falla til baka og beita skyndisóknum en mér fannst við ekki halda boltanum nægilega vel. Þeir voru því stanslaust með boltann en við vorum þéttir," sagði Arnar og bætti við.

„Við höfum verið að klúðra svona leikjum niður í jafntefli þannig að ég er mjög sáttur með að ná því að taka öll þrjú stigin," sagði Arnar sem sagði sína menn hafa ætlað sér að gera þetta að góðum afmælisdegi fyrir þjálfarann sinn. „Þetta var frábær afmælisgjöf fyrir Ólaf þjálfara og það var náttúrulega markmiðið fyrir fram að gera þetta almennilega fyrir hann," sagði Arnar en þjálfarinn Ólafur Helgi Kristjánsson varð einmitt fertugur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×