Innlent

Býst við að mannekla leikskóla leysist á næstu vikum

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir.
Ragnhildur Erla Bjarnadóttir.

Sviðsstjóri leikskólasviðs borgarinnar á von á því að allir leikskólar verði fullmannaðir á næstu vikum og þá verði hægt að fylla þau pláss sem ekki hefur verið hægt að fylla. Umsókn um störf á leikskólunum hefur fjölgað mjög á síðustu vikum.

Á fundi leikskólaráðs í síðustu viku var greint frá stöðu mála á leikskólum borgarinnar og bókaði ráðið að gleðilegt væri að staða í starfsmannamálum væri nú betri en undanfarin misseri. Mikið bærist af umsóknum til leikskólasviðs og meðal umsækjenda væri fólk með fjölbreytta menntun og reynslu.

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri leikskóalsviðs, segir að um síðustu mánaðamót hafi vantað um 70 starfsmenn á leikskólana, 60 inn á deildir og tíu í önnur störf. Í síðustu viku hefði staðan svo verið sú að 40 starfsmenn vantaði inn á deildinar. „Við erum að fá góðar umsóknir frá vel menntuðu og reynslumiklu fólki," segir Ragnhildur. Hún segir meðal annars á ferðinni uppeldismenntað fólk og fólk með tónlistar- og myndlistarmenntun.

Ráðningarferli borgarinnar er um hálfur mánuður. „Við horfum nokkuð jákvæð fram á veginn og vonumst til að geta fullmannað leikskóla og tekið inn í öll þau pláss sem eru í boði hjá leikskólum borgarinnar," segir Ragnhildur en um 160 pláss eru laus á leikskólunum.

Aðspurð telur Ragnhildur ekki ólíklegt að fjölgun umsókna um störf á leikskólum megi rekja til breyttra efnahagsaðstæðna í landinu. Hún bendir þó á að síðustu ár hafi alltaf vantað flest fólk í upphafi septembermánaðar en að starfsmannaeklan hafi minnkað þegar liðið hafi á haustið. „Núna gerist þetta hraðar en við höfum séð undanfarin ár og staðan varðandi ráðningar er mun betri en undanfarin þrjú ár," segir Ragnhildur enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×