Innlent

Kosningar gætu sett lánafyrirgreiðslur í uppnám

MYND/Stöð 2

Alþingiskosningar gætu sett lánafyrirgreiðslur til Íslands í uppnám að mati forsætisráðherra. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur þó ekki sett nein skilyrði hvað kosningar varðar.

Háværar kröfur hafa verið uppi um að ríkisstjórnin boði til kosninga sem allra fyrst. Stjórnarandstaðan lagði það til á Alþingi í gær að þingi yrði slitið fyrir áramót og í kjölfarið boðað til kosninga. Mótmælendur á Austurvelli hafa tekið í sama streng.

Forsætisráðherra segir að það væri glapræði að stofna til kosninga nú. „Við erum með fangið fullt að verkefnum sem þarf að klára. Fleyting krónunnar sem barst í tal hér áðan er bara eitt atriði að þeim. Við erum með samkomulag við nágrannalönd og ég er að hringja í kollega hér á Norðurlöndum í dag út af þessum lánamálum og það er alveg ljóst að ef við getum ekki klárað það sem upp á okkur stendur varðandi samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem kemur til endurskoðunar í febrúar, þá verða engin lán á boðstólum frá þeim sem hafa boðist til að lána okkur. Þetta hangir allt saman," sagði forsætisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Hann segir enn fremur að ef stefnt sé í pólitíska óvissu, sem við myndum gera með því að rjúfa þing og boða til kosninga, þá verði ekkert af þessu. „Þess vegna verðum við að einhenda okkur í að leysa úr málum en ekki búa til meiria óvissu og óróa ofan á það sem fyrir er," segir Geir.

Aðspurður segir Geir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi ekki sett nein skilyrði varðandi kosningar. „Ég er bara að tala um það hvað mér finnst skynsamlegt," segir Geir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×