Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin í útrás

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Englandsmeistarar Manchester United.
Englandsmeistarar Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Svo gæti farið að í nánustu framtíð munu leikir í ensku úrvalsdeildinni verða leiknir annars staðar en á Englandi.

Þetta hefur fréttastofa BBC eftir sínum heimildum. Fulltrúar þeirra 20 félaga sem eru í ensku úrvalsdeildinni munu hafa öll samþykkt að skoða þann möguleika að bæta einni umferð við tímabilið og að hún yrði leikin á erlendri grundu.

Um væri að ræða tíu aukaleiki sem færu fram víða um heiminn en það yrði undir erlendum borgum komið að bjóða í leikina.

Stigin sem liðin myndu vinna sér inn í þessari aukaumferð myndu telja í deildinni - leikirnir yrðu því ekki aðeins sýningaleikir heldur hugsanlega gríðarlega mikilvægir ef baráttan á toppi og botni er hörð.

Það kæmi einnig til greina að styrkleikaraða efstu fimm liðunum í deildinni til að forðast það að þau myndu mætast innbyrðis í leikjunum.

Áhuginn á ensku úrvalsdeildinni er gríðarlega mikill og er ekki búist við öðru en að slíkt framtak myndi slá rækilega í gegn.

Ákvörðun þess efnis myndi væntanlega ekki verða tekin fyrr en í sumar í fyrsta lagi og breytingarnar ekki taka gildi fyrr en tímabilið 2010-2011. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×