Enski boltinn

Vill að Fabregas fari fram á sölu

NordcPhotos/GettyImages

Ramon Calderon, forseti Real Madrid, segist ekki vilja valda vandræðum í herbúðum annara félaga og hefur því komið þeim skilaboðum til Cesc Fabregas hjá Arsenal að hann fari fram á sölu svo hann geti farið til Real.

Calderon vill fá bestu mögulegu spænsku leikmennina til liðs við Real Madrid, en hefur gefist upp á að reyna að kaupa menn eins og Fabregas og Cristiano Ronaldo. Hann vill því að þeir fari sjálfir fram á sölu.

"Stefna mín er aldrei að valda róti í herbúðum annara liða sem vilja ekki selja leikmenn sína. Það verður því að vera leikmaðurinn sjálfur sem fer fram á sölu ef hann vill prófa eitthvað nýtt og þá göngum við að samningaborðinu við félag hans," sagði Calderon og lýsti enn og aftur yfir aðdáun sinni á Fabregas.

"Cesc er leikmaður sem þjálfarar okkar væru vel til í að fá. Hann verður hinsvegar að taka þessa ákvörðun sjálfur, alveg eins og Cristiano Ronaldo," sagði forsetinn í útvarpsviðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×