Innlent

Björn Bjarnason tók útvarpskonu á beinið

Helga Vala Helgadóttir fyrrum útvarpskona á Rúv.
Helga Vala Helgadóttir fyrrum útvarpskona á Rúv.

Fyrrum útvarpskonan Helga Vala Helgadóttir segir frá því á bloggsíðu sinni þegar hún var tekin á beinið af Birni Bjarnasyni. Þá var hún einn af umsjónarmönnum Spegilsins og fékk símtal frá ráðherranum í gsm síma sinn.

„Benti mér sömuleiðis á að ég skyldi vara mig á því að þetta væri ríkisfjölmiðill og því ekki sjálfsagt að vera með umfjöllun þar sem gagnrýndi stjórnvöld svona. Undir lá vissulega að hann hefði völd til að láta mig fara. Þetta var á þeim tíma sem Spegillinn átti fótum sínum fjör að launa í samskiptum við útvarpssstjórann Markús Örn Antonsson og fleiri innanhússmenn sem ég nenni ekki að nefna," skrifar Helga Vala á bloggsíðuna.

Hún segir einnig frá því þegar Halldór Ásgrímsson tók hana á beinið eftir viðtal sem hún tók við hann í ráðuneytinu við Rauðarárstíg.

„Eftir viðtalið, sem snérist meðal annars um þátttöku okkar í árárinni á Írak, missti Halldór stjórn á skapi sínu og ákvað að lesa yfir hausamótunum á fjölmiðlakonunni. Hvernig við voguðum okkur að halda uppi þessum áróðri í ríkisútvarpinu, að við værum greinilega í persónulegu agenda varðandi þetta stríð og að við yrðum að gæta okkar verandi hjá ríkisfjölmiðli," skrifar Helga Vala og bætir því við að þetta upphlaup hafi komið nokkuð á óvart þar sem hún átti því ekki að venjast að ráðmenn væru að æpa á sig.

„En ég var nokkuð óskammfeilin þarna og svaraði hástöfum og af fremsta megni. Á endanum fór ég út af skrifstofunni og upp í útvarp, sorrý yfir því að hafa ekki haft tækið á upptöku á meðan á yfirhalningunni stóð."

Hér er hægt að skoða bloggsíðu Helgu Völu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×