Erlent

Ólöglegum innflytjanda ekki vísað úr landi af mannúðarástæðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki.
Myndin tengist fréttinni ekki.

Ólöglegum innflytjanda í Bretlandi sem varð þarlendum rithöfundi að bana verður ekki vísað úr landi af mannúðarástæðum.

Ahsan Sabri frá Pakistan var ökuréttindalaus og án lögbundinna trygginga þegar hann ók á hina þrítugu Sophie Warne árið 2004 með þeim afleiðingum að hún lést. Sabri taldist einnig til ólöglegra innflytjenda þegar atvikið átti sér stað þar sem vegabréfsáritun hans til Bretlands var fallin úr gildi en hann kom til landsins á námsmannaáritun árið 1998.

Útlendingaeftirlitið hafði þegar kveðið upp úrskurð um brottvísun Sabris frá landinu en dómari við breska yfirréttinn sneri þessari ákvörðun og kvað Sabri heimil dvöl í Bretlandi áfram, annað væri innrás í fjölskyldulíf hans. Sabri kvæntist breskri konu árið 2003 og hafa þau nú eignast saman dóttur.

Dómarinn rökstuddi ákvörðun sína með því að vísaði hann Sabri úr landi myndi fjölskylda hans að líkindum fylgja honum til Pakistan og þar með hefði einka- og fjölskyldulífi þeirra verið raskað meira en þurfa þætti. Sabri hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi þegar hann varð rithöfundinum unga að bana en Sophie Warne hafði gefið út fimm bækur þegar hún lést og vann að sinni fyrstu skáldsögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×