Erlent

Búið að opna kjörstaði í Bandaríkjunum

MYND/Syöð 2

Dýrustu forsetakosningar sögunnar hófust í Bandaríkjunum fyrir klukkustund. Barack Obama er sigurstranglegri en John McCain samkvæmt skoðanakönnunum.

Samkvæmt skoðanakönnunum verður Barack Obama fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna. Og það gæti orðið með stórum sigri. Í Gallup-könnun hefur hann hvorki meira né minna en ellefu prósenta forskot. Samkvæmt könnun NBC-fréttastofunnar og Wall Street Journal er forskotið átta prósent og samkvæmt Reuters sjö prósent.

Búist er við mikilli kjörsókn. Ein vísbendingin um það er að yfir tuttugu milljónir manna hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar. Það er metfjöldi.

Kosningabaráttan hefur verið löng og grimm. Og ekki bara á milli þeirra Baracks Obama og Johns McCain. Þau Barack Obama og Hillary Clinton börðust mánuðum saman um hvort þeirra yrði frambjóðandi Demokrataflokksins.

Stöð 2 sýnir frá kosningasjónvarpi CNN

Á þeim tíma hafði McCain næstum frítt spil og stóð vel í skoðanakönnunum. Obama byrjaði hins vegar að sækja í sig veðrið um leið og demókratar gerðu upp hug sinn. Og hann hefur haldið forskoti sínu æ síðan. Í dag er svo komið að þjóðinni að kveða upp sinn úrskurð.

Þess má geta að klukkan tíu mínútur fyrir tólf í kvöld mun Stöð 2 tengjast beint við CNN fréttastofuna og áhorfendur stöðvarinnar geta því fylgst beint með bandarískum kosningasjónvarpi. Sú útsending verður í opinni dagskrá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×