Innlent

Verð í vínbúðum hækkar líklegast á föstudaginn

Verð á áfengi í vínbúðum Áfengis og tóbaksverslunar ríksins mun að líkindum hækka á föstudaginn samkvæmt bréfi sem birgjum hefur borist og fréttastofa hefur undir höndum. Reglubreyting gerir ÁTVR nú kleyft að breyta verði á öðrum tíma en fyrsta hvers mánaðar eins og venjan hefur verið og hefur verslunin boðið birgjum að gera breytingar fyrir komandi helgi.

Fyrir viku var gerð breyting á reglum fjármálaráðuneytis um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja. Þar segir að Áfengis og tóbaksverslun ríkisins breyti útsöluverði sínu að jafnaði fyrsta dag hvers mánaðar. Birgjar geti breytt verði sínu til ÁTVR mánaðarlega. Tilkynna skuli verðbreytingar skriflega til ÁTVR eigi síðar en tuttugasta dag hvers mánaðar á undan verðbreytingardegi. ÁTVR geti til 1. apríl á næsta ári heimilað birgjum að breyta verði sínu oftar ef sérstakt tilefni sé til.

Þær upplýsingar fengust hjá ÁTVR að stefnan yrði að breyta verði áfram í byrjun mánaðar en hægt yrði að gera það á öðrum tíma ef ástæða þætti til. Verið væri að skoða breytingar í dag.

Fréttastofa hefur undir höndum bréf til birgja frá innkaupastjóra ÁTVR þar sem segir að versunin hafi fengið sérstaka heimild til verðbreytingar á föstudaginn sem komi í stað breytingar fyrsta desember, eða eftir næstu helgi.

Birgjum þeim er þess óski gefist þannig tækifæri til að senda inn nýtt verð fyrir áfengistegundir og í stað þess sem áður hafa verið sent vegna verðbreytingar þann fyrsta desember næstkomandi. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvaða breytingar verði gerðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×