Íslenski boltinn

Ásmundur: Draumabyrjun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fjölnismenn hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína í Landsbankadeildinni.
Fjölnismenn hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína í Landsbankadeildinni.

Nýliðar Fjölnis eru á toppi Landsbankadeildarinnar eftir 1-0 sigur á Grindavík í kvöld. Þeir hafa betri markatölu en Keflavík sem einnig hefur fullt hús að loknum þremur leikjum.

„Þetta er draumabyrjun hjá okkur. Tilfinningin er frábær, að vera komnir með níu stig í hús og að við séum á þessum stað á töflunni er frábært," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir leikinn.

„Við vorum kannski heppnir undir lokin en við lögðum upp með það að verjast vel og vera þéttir fyrir. Það gekk mjög vel lengst af og var ég mjög ánægður með vörnina í dag."

Ásmundur segir að sérstök áhersla hafi verið lögð á að stöðva Scott Ramsay. „Við pössuðum sérstaklega vel upp á hann og reyndu að tví- og jafnvel þrídekka hann. Það gekk mjög vel."

Spurður út í hvort hann sé ekki hræddur við að liðið muni brotlenda var svarið: „Staðan er þessi í augnablikinu og við njótum þess á meðan varir. Við tökum einn leik fyrir einu og sjáum svo til," sagði Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×