Enski boltinn

Alves er leikmaður 33. umferðar

NordcPhotos/GettyImages

Brasilíski framherjinn Alfonso Alves sló í gegn um helgina þegar hann skoraði bæði mörk Middlesbrough í 2-2 jafntefli liðsins gegn Manchester United.

Smelltu hér til að sjá myndband með leikmanni umferðarinnar. 

Það var reyndar Cristiano Ronaldo sem kom United á bragðið í leiknum, en Alves óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn og skoraði tvívegis áður en Wayne Rooney bjargaði stigi fyrir meistaraefnin í United. Alves átti líka skot í stöng og slá í leiknum.

Alves var keyptur til Boro fyrir 12,5 milljónir punda í sumar en gekk erfiðlega að fóta sig á Englandi í byrjun. Það var því sannarlega kominn tími á að fyrrum Heerenveen-leikmaðurinn kæmist á blað hjá Boro, en hann hafði ekki skorað fyrir leikinn gegn United.

Miklar vonir voru bundnar við Alves þegar hann kom til Middlesbrough því þessi 27 ára gamli markaskorari var með frábært markahlutfall þegar hann lék með hollenska liðinu og náði m.a. að skora sjö mörk í einum og sama leiknum.

"Ég er mjög ánægður að hafa loksins náð að skora, en ég vissi að mörkin kæmu ef mér yrði sýnd þolinmæði og ég fengi tíma til að aðlagast. Það var gaman að skora á móti Manchester United en ég hefði frekar viljað að við hefðum unnið leikinn," sagði Alves eftir leikinn.

Hann segist hafa verið lengi að aðlagast hraðanum í enska boltanum. "Hollenski og brasilíski boltinn er ekki nærri eins hraður og harður og sá enski, en ég er að venjast honum og vona að ég eigi eftir að ná árangri hérna," sagði Alves. 

Nafn: Alfonso Alves Martins Júnior

Fæddur: 30. janúar 1981 í Belo Horizonte í Brasilíu

Félög: Atletico-MG (Bra), Örgryte, Malmö FF, Heerenveen, Middlesbrough.

Númer: 12 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×