Erlent

40 ár frá vígi Martin Luther King

Martin Luther King er til hægri á myndinni.
Martin Luther King er til hægri á myndinni. MYND/AP

Í dag eru 40 ár liðin síðan mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King var veginn úr launsátri í Memphis í Tennessee. King, sem var baptistaprestur, barðist ötullega fyrir réttindum blökkumanna á 6. og 7. áratugnum en frægasta uppákoman á hans vegum er óumdeilanlega Washingtongangan, „The March of Washington" árið 1963 þar sem King flutti hina eftirminnilegu ræðu sína er hófst á orðunum „Ég á mér draum".

King lauk doktorsprófi í guðfræði frá Boston University árið 1955 og varð árið 1964 yngsti viðtakandi friðarverðlauna Nóbels, 35 ára að aldri. Hann var skotinn til bana á svölum Lorraine-hótelsins í Memphis 4. apríl 1968. Skotmaðurinn var talinn hafa verið James Earl Ray, innbrotsþjófur og smáglæpamaður, sem handtekinn var á Heathrow-flugvellinum í London tveimur mánuðum síðar er hann reyndi að komast til Kanada á fölsku vegabréfi.

Ray játaði verknaðinn en dró játninguna til baka þremur dögum síðar og hefur haldið sakleysi sínu fram síðan. Hann hlaut 99 ára fangelsisdóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×