Umbolsmaður og faðir brasilíska miðjumannsins Diego hjá Werder Bremen segir að Arsenal sé eitt þeirra félaga sem hafi sett sig í samband með hugsanleg kaup í huga.
Diego hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir vaska framgöngu með þýska liðinu undanfarin tvö ár og hefur fyrir vikið verið orðaður við t.d. Juventus, Real Madrid, Chelsea og Manchester City.
"Það er mikið af slúðri í gangi um Diego og það er ekki allt á rökum reist," sagði umboðsmaðurinn í samtali við þýska blaðið Bild. "En Real Madrid, Juventus og Arsenal hafa öll áhuga á að fá son minn í sínar raðir og útsendari Juventus hefur þegar komið hingað til viðræðna," sagði Djair da Cunhna, faðir og umboðsmaður miðjumannsins.