Erlent

Lengstu kosningabaráttu Bandaríkjanna lokið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama var í gær kjörinn 44. forseti Bandaríkjanna. Það var laust eftir klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma sem John McCain viðurkenndi ósigur sinn en Obama var þá kominn með 323 kjörmenn á bak við sig og nýbúinn að tryggja sér sigurinn í Kaliforníu og Flórída. Til sigurs þarf forsetaefni 270 kjörmenn.

George Bush forseti hringdi í Obama og óskaði honum til hamingju með sigurinn þegar ljóst var orðið hvert stefndi. Sagði Bush arftaka sínum að hann væri um það bil að hefja stórfenglegustu ferð lífs síns og bauð honum til heimsóknar í Hvíta húsið svo fljótt sem verða mætti.

Þegar upp var staðið vann Obama 338 kjörmenn en McCain 157. Um 51 prósent greiddra atkvæða féll Obama í skaut en McCain hlaut 48 prósent. Kjörsókn var góð á bandarískan mælikvarða og er talið að 130 milljónir manna hafi neytt atkvæðisréttar síns. Obama sver embættiseið í janúar og bíða hans þá hörð átök við efnahagsmálin.

Langur vegur og brattur

Hann sagði langan veg og brattan liggja fram undan. Óvíst væri að takmarkið næðist á einu ári eða einu kjörtímabili en hann þættist þess þó fullviss að það næðist og Bandaríkjamenn sem þjóð myndu að lokum ná því sem að væri stefnt. Talið er að um 125.000 manns hafi verið saman komin í Grant Park í Chicago til að hlusta á sigurræðu Obama. Hann sagðist hlakka til samstarfsins við fyrrum mótherja sína, McCain og hina kanadísku Söru Palin en McCain hvatti alla Bandaríkjamenn til að fylkja sér um hinn nýja forseta þjóðarinnar.

Mikil fagnaðarlæti voru við Hvíta húsið í Washington og ekki síður á götum Chicago, heimaborgar Obama. Auk kröftugra umbóta í efnahagsmálum hefur Obama lofað skattalækkunum og stórbættu heilbrigðiskerfi auk þess sem hann hyggst kalla bandaríska hermenn heim frá Írak. Með sigri Obama í nótt lauk lengsta framboðsslag forsetaefna í sögu Bandaríkjanna en kosningabaráttan stóð í alls 21 mánuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×