Erlent

Neydd til að fjarlægja geirvörtuhringi með töng

Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/AP

Kona, sem neydd var til að fjarlægja skrauthringi úr geirvörtum sínum með töng við vopnaleitarhlið í Texas, krefst afsökunarbeiðni frá Samgönguöryggismiðstöð Bandaríkjanna. Atvikið átti sér stað á flugvellinum í Lubbock í Texas í febrúar. Tildrög þess voru þau að málmleitartæki gaf merki um að konan, Mandi Hamlin, bæri málmhlut innanklæða en hún hefur skreytt líkama sinn með fjölda hringja og pinna í svokölluðum „piercing"-stíl.

„Þetta kom mér algjörlega á óvart og ég fann til lítilsvirðingar, ótta og reiði," sagði Hamlin um atvikið sem er nú í höndum lögmanns hennar, Gloriu Allred. Framhald málsins var að Hamlin var beðin um að fara afsíðis og fjarlægja hringina úr geirvörtunum, ellegar færi hún ekki um borð í flugvélina. Hafi hún náð öðrum hringnum úr vandræðalaust en hinn hafi setið sem fastast. Segir Hamlin að öryggisverðir hafi þá komið með töng og skipað henni að fjarlægja hringinn með henni.

Talsmenn Samgönguöryggismiðstöðvarinnar segja að málið sé í rannsókn og séu öryggisverðir sérþjálfaðir til að fást við tilvik þar sem flugfarþegar beri hringi og pinna á viðkvæmum stöðum. Sögðu þeir enn fremur að það væri skylda miðstöðvarinnar að gæta öryggis amerískra borgara og sú háttsemi hryðjuverkamanna að fela háskalega hluti innanklæða væri vel þekkt. Lagði miðstöðin fram mynd af „brjóstahaldarasprengju" máli sínu til stuðnings. „Þetta var fáránleg uppákoma sem ég ætla ekki að taka þegjandi og hljóðalaust. Enginn verðskuldar að lenda í svona löguðu," sagði Hamlin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×