Erlent

Mynd Wilders mótmælt í hinum íslamska heimi

Frá mótmælum í Djakarta í gær.
Frá mótmælum í Djakarta í gær. MYND/AP

Nokkrir tugir manna komu saman við hollenska sendiráðið í Djakarta í Indónesíu í morgun til þess að mótmæla nýbirtri stuttmynd hollenska stjórnmálamannsins Geerts Wilders um Kóraninn.

Myndin Fitna var sett á Netið í síðustu viku og hefur hún að geyma harða gagnrýni á hið helga rit múslíma. Þá er einnig varað við fjölgun múslíma í Hollandi og Evrópu í myndinni.

Mótmælendurnir sem komu saman í dag hentu eggjum í sendiráðið og hrópuðu slagorð gegn Hollandi. Þá kröfðust þeir þess að hollensk stjórnvöld sæktu Wilders til saka fyrir myndina.

Einnig kom til mótmæla á eynni Jövu í Indónesíu í gær og þá hafa rúmlega 50 jórdanskir þingmenn farið fram á það að stjórnmálasambandi við Holland verði slitið vegna myndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×