Erlent

Stjórnarandstaðan í Simbabve segist sigra í kosningunum

Stjórnarandstaðan í Simbabve segir allt stefna í sigur í forsetakosningunum þar í landi í gær. Talning stendur nú yfir og ekki búist við úrslitum fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Fulltrúar í stjórnarandstöðuflokki forsetaframbjóðandans Morgans Tsvangirais segja hann með meirihluta í mörgum stórum kjördæmum. Þeir óttast hins vegar að Robert Mugabe, forseti, ræni sigrinum á endasprettinum með svikum og prettum.

Kosningarnar eru sagðar sögulegar því í fyrsta sinn frá því Mugabe tók við völdum á níunda áratug síðustu aldar sé honum veitt raunverulega samkeppni.

Þriðji frambjóðandinn, Simba Makone, fyrrverandi fjármálaráðherra, eigi einnig möguleika á sigri. Mugabe hefur átt í vök að verjast en efnahagur landsins er í rúst - verðbólga rúmlega hundrað þúsund prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×