Erlent

Lítil viðbrögð hjá múslimum við mynd um Kóran

Hollendingar önduðu léttar í morgun eftir að múslimar í landinu sýndu lítil viðbrögð við nýrri kvikmynd um Kóraninn.

Fimmtán mínútna kvikmynd leikstjórans Geert Wilders átti að sýna fram á að Kóraninn, hin helga bók múslima, hefði beinlínis mælt fyrir um árásir öfgasinnaðra íslamista á undanförnum árum. Myndin var sett á Netið í gærkvöldi. Óttast var að viðbrögð múslima í Hollandi yrðu hörð. En nótt og í morgun var allt með kyrrum kjörum í Amsterdam.

Sjálfur segist höfundur myndarinnar vera sannfærður um að íslam og kóraninn séu ógn við frelsi í Hollandi. Aðspurður sagðist hann vona að sýning hennar yrði ekki til þess að Hollendingar yrðu fyrir aðkasti eða árásum erlendis.

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, mótmælir fullyrðingum Wilders og segir að langflestir múslimar í landinu hafni ofbeldi. Stjórnvöld hafa fylgst með undirbúningi myndarinnar og verið í sambandi við samtök múslima í því skyni að koma í veg fyrir ofsafengin viðbrögð. Enn sem komið er virðist það hafa tekist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×