Enski boltinn

Jafntefli í meiðslaleik Eduardo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eduardo Da Silva er hér borinn sárþjáður af velli.
Eduardo Da Silva er hér borinn sárþjáður af velli. Nordic Photos / Getty Images

Birmingham og Arsenal gerðu 2-2 jafntefli í leiknum sem verður minnst fyrir hrottalega tæklingu Martin Taylor á Eduardo Da Silva, leikmanni Arsenal.

Það var strax á þriðju mínútu leiksins sem Taylor tæklaði Eduardo við ökkla. Myndir af atvikinu hafa sýnt að hann brotnaði afar, afar illa og hefur Arsenal staðfest að Eduardo er fótbrotinn.

Hann var fluttur á Selly Oak sjúkrahúsið eftir að hafa legið á vellinum í rúmar sjö mínútur. Samkvæmt nýjustu fregnum er ekki búið að ákveða hvort hann þurfi að gangast strax undir aðgerð.

Leikmenn beggja liða og sjúkraþjálfarar voru greinilega í miklu sjokki vegna meiðslanna, sér í lagi Cesc Fabregas og Emmanuel Adebayor.

Nú þegar er gert ráð fyrir því að Eduardo spili ekki aftur með liðinu það sem eftir lifir leiktíðar né heldur spili með Króatíu á EM í knattspyrnu í sumar.

Skömmu eftir að leikurinn hófst á nýjan leik skoraði James McFadden fyrsta mark Birmingham beint úr aukaspyrnu.

Greinilegt var að leikmenn Arsenal áttu erfitt með að jafna sig á meiðslum Eduardo og það var ekki fyrr en í seinni hálflelik að þeir tóku völdin á vellinum.

Theo Walcott skoraði þá tvívegis fyrir Arsenal en McFadden jafnaði metin með skoti úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Gael Clichy var dæmdur brotlegur eftir viðskipti sín við Stuart Parnaby.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×