Enski boltinn

Eduardo meiddur eftir hrottafengna tæklingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Arsenal fagna marki Eduardo fyrr á leiktíðinni.
Leikmenn Arsenal fagna marki Eduardo fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / Getty Images

Króatinn Eduardo Da Silva meiddist strax á þriðju mínútu leiks Birmingham og Arsenal sem nú stendur yfir eftir hrottafengna tæklingu frá Martin Taylor.

Taylor fékk að líta rauða spjaldið en ekki er ljóst eins og er hversu alvarleg meiðsli Eduardo eru.

Stöðva þurfti leikinn í nærri átta mínútur á meðan var verið að hlúa að Eduardo og þetta tók greinilega mikið á liðsfélaga hans inn á vellinum.

Talið er að Eduardo sé fótbrotinn, jafnvel ökklabrotinn. Engar endursýningar af atvikinu hafa verið sýndar í sjónvarpsútsendingu sem gefur ef til vill til kynna alvarleika meiðslanna.

Enskir fjölmiðlar sem hafa fjallað um málið slá því nánast föstu að Eduardo komi ekki aftur við sögu á tímabilinu og að hann muni einnig missa af EM í sumar en hann skoraði tíu mörk fyrir Króata í undankeppninni.

Hann var fluttur beint á sjúkrahús og ekki ólíklegt að hann þurfi að ganga strax undir skurðaðgerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×