Enski boltinn

Carragher: Eitthvað meira en lægð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool.
Jamie Carragher, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Jamie Carragher segir að Liverpool sé að ganga í gegnum eitthvað meira en bara lægð en liðið hefur gengið illa í deildinni og var slegið úr bikarkeppninni um helgina af B-deildarliði Barnsley.

Liverpool hefur aðeins fengið átta stig úr síðustu sjö leikjum sínum í deildinni og er nú nítján stigum á eftir toppliði Arsenal.

„Ég myndi ekki segja að við værum í lægð - þetta hefur staðið lengur yfir en svo. Við erum einfaldlega ekki að spila nægilega vel. Það þýðir ekki að benda á einhverja eina ástæðu, við höfum bara ekki verið nógu góðir," sagði Carragher.

„Við erum enn með í Meistaradeildinni og við verðum að berjast fyrir því að tryggja okkur fjórða sætið í deildinni. Hver einasti deildarleikur verður mikilvægur því við verðum að ganga úr skugga um að við verðum með í Meistaradeildinni á næsta tímabili."

Liverpool mætir toppliði ítölsku úrvalsdeildarinnar, Inter, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield annað kvöld.

„Það er gríðarlega mikilvægur leikur framundan og verðum við að bretta upp ermarnar því Meistaradeildartitilinn er sá eini sem við eigum enn möguleika á að vinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×