Enski boltinn

Gerrard einbeitir sér að fjórða sætinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gerrard í baráttu við Michael Ballack um helgina.
Gerrard í baráttu við Michael Ballack um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segist stefna á að ná fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar til að tryggja liðinu þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Liverpool er sem stendur nítján stigum á eftir toppliði Arsenal en á að vísu einn leik til góða. Sá leikur er frestuð viðureign gegn West Ham úr 2. umferð deildarinnar og fer hún fram í byrjun næsta mánaðar.

„Það verður mikil áskorun að ná fjórða sætinu og því verðum við að gleyma titlinum og einbeita okkur að þeirri baráttu," sagði Gerrard.

„Það er mikið af liðum í kringum okkur í töflunni sem eru að spila vel þessar vikurnar."

Hann var annars ánægður með frammistöðu Liverpool gegn Chelsea um helgina.

„Þetta var án efa mikil framför frá síðustu leikjum. Við vörðumst betur og ef annað liðið átti skilið að vinna þá vorum það við."

„Sumir leikmanna liðsins sem hafa verið gagnrýndir undanfarið stóðu sig vel. Við getum tekið margt jákvætt úr þessum leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×