Enski boltinn

Queiroz: Landsleikirnir tóku sinn toll

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Queiroz er aðstoðarmaður Alex Ferguson hjá United.
Carlos Queiroz er aðstoðarmaður Alex Ferguson hjá United. Nordic Photos / Getty Images
Carlos Queiroz, aðstoðarknattspyrnustjóri Manchester United, segir að leikmenn United hafi verið þreyttir eftir landsleikjahléið í vikunni.

United tapaði fyrir grönnum sínum í Manchester City í dag, 2-1, í leik sem markaði að hálf öld er liðin frá flugslysinu í München þar sem átta leikmenn Manchester United fórust.

„Ég held að tilefni dagsins hafi ekki haft þau áhrif á leikinn að við töpuðum honum," sagði Queiroz. „Við erum með marga mjög leikreynda leikmenn í hópnum. Ég held að fyrst og fremst hafi strákarnir verið margir hverjir þreyttir enda spiluðu sjö þeirra í 90 mínútur með landsliðum sínum á miðvikudagskvöldið."

„Við byrjuðum leikinn illa og byrjunin var mjög frábrugðin því hvernig við höfum verið að spila undanfarnar vikur. Hraði leiksins og viðhorf leikmanna var ekki eins og við eigum að venjast. Það var eins og að strákarnir ætluðu að klára þennan leik á fyrstu fimmtán mínútunum en það er bara ekki alltaf hægt."

„Það er líka mjög erfitt að spila gegn liði eins og City því það er mjög vel skipulagt og þeir nýttu sín færi afskaplega vel í dag."

„En þegar uppi er staðið var þetta bara ekki okkar dagur í dag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×