Enski boltinn

Aston Villa skoraði fjögur í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Carew fagnar einu þriggja marka sinna í dag ásamt Craig Gardner.
John Carew fagnar einu þriggja marka sinna í dag ásamt Craig Gardner. Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa vann 4-1 sigur á Newcastle í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa verið 1-0 undir í hálfleik.

Michael Owen kom Newcastle yfir snemma í leiknum er hann skallaði knöttinn í marki af stuttu færi. Boltinn hafði reyndar viðkomu í varnarmanni Aston Villa.

Wilfred Bouma jafnaði metin fyrir Aston Villa með marki á 48. mínútu en þá var komið að þætti Norðmannsins John Carew.

Hann skoraði síðustu þrjú mörk leiksins og tryggði sínum mönnum þar með 4-1 sigur. Fyrsta markið hans kom með skalla eftir hornspyrnu Ashley Young, þá skoraði hann af mjög stuttu færi eftir að varnarmönnum Newcastle mistókst að hreinsa boltann frá marki.

Það var svo vítaspyrna dæmd á Stephen Carr á lokamínútum leiksins fyrir að handleika knöttinn og fullkomnaði Carew þrennuna með því að skora úr vítinu.

Aston Villa kom sér upp við hlið Everton í fjórða sæti deildarinnar og færðist upp fyrir Liverpool en bæði liðin eiga leik til góða.

Newcastle er nú í tólfta sæti deildarinnar með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×