Enski boltinn

Tímabilið líklega búið hjá Davis

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claude Davis, leikmaður Derby.
Claude Davis, leikmaður Derby. Nordic Photos / Getty Images

Paul Jewell, stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Derby, segir að varnarmaðurinn Claude Davis verði líklega frá það sem eftir lifir leiktíðar.

Davis mun á föstudaginn gangast undir aðgerð á hné og kemur eftir hana endanlega í ljós hversu lengi hann verður frá.

„Hann hefur kvartað undan óþægindum í hnénu og er málið komið á það stig að hann verður að fara í aðgerð," sagði Jewell.

„Ég er ekki viss um hversu alvarleg meiðslin eru en þau eru af svipuðum toga og þau sem Danny Mills er að glíma við," bætti hann við. Mills er á láni hjá Derby frá Manchester City en í síðasta mánuði kom í ljós að hann yrði einnig frá út tímabilið vegna hnémeiðsla sinna.

Davis hefur spilað í nítján leikjum með Derby á tímabilinu en liðið á í mikilli fallbaráttu og er einungis með níu stig í botnsæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×