Enski boltinn

Joorabchian lögsækir West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson er hér til hægri á myndinni.
Björgólfur Guðmundsson er hér til hægri á myndinni. Nordic Photos / Getty Images

Kia Jorrabchian hefur lögsótt enska úrvalsdeildarliðið West Ham sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar.

Joorabchian er „eigandi" Carlos Tevez sem lék með West Ham í eitt tímabil, 2006-2007, áður en hann gekk til liðs við Manchester United á tveggja ára lánssamningi.

Joorabchian heldur því fram að West Ham skuldi sér sjö milljónir punda í ógreiddum skuldum vegna Tevez.

Lögfræðingar Joorabchian munu í dag leggja fram gögn kæru sinni til stuðnings en hann hefur farið fram á að West Ham greiði sér 4,5 milljónir punda sem hann segir félagið skuldi sér auk 2,6 milljóna punda sem West Ham mun hafa átt að greiða honum þann 31. janúar síðastliðinn.

Talsmaður West Ham sagði í samtali við Telegraph að félagið skuldi Joorabchian enga peninga.

„Við höfum vitað um kröfur Joorabchian í talsverðan tíma en við teljum að þær eigi ekki rétt á sér. Við munum verja okkar málstað í dómsalnum ef þörf krefur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×