Hópur þingmanna telur nauðsynlegt að breyta tóbaksvarnarlögum þannig að veitingamönnum verði leyft að koma upp lokuðu rými innandyra fyrir reykingamenn. Frumvarp þessa efnis er nú í smíðum.
Fjölmargir veitingamenn í miðbæ Reykjavíkur hafa leyft reykingar innandyra undanfarna daga í mótmælaskyni við reykingabannið. Telja þeir að bannið gangi of langt og vilja fá leyfi til að koma upp sérstöku reykherbergi innandyra.
Starfsmenn vinnueftirlitsins og heilbrigðiseftirlitsins gengu á milli veitingastaða um helgina og gerðu athugasemdir þar sem reykingar voru leyfðar. Ekki var gripið til annarra aðgerða.
Tóbaksvarnarlögin þykja óskýr hvað varðar þvingunúrræði til að bregðast við brotum á banninu. Á mánudaginn óskaði umhverfissvið Reykjavíkurborgar eftir leiðbeiningum frá heilbrigðisráðuneytinu vegna málsins. Því var svarað á föstudaginn. Þar benti ráðuneytið á að samkvæmt lögum megi veita þeim stöðum áminningar sem fara gegn banninu. Þá megi beita dagsektum og að lokum svipta staði starfsleyfi.
Nokkrir þingmenn vilja nú beita sér fyrir breytingum á reykingabanninu með það fyrir augum að gera það sveigjanlegra. Þar á meðal er Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, en hann hyggst leggja fram frumvarp þessa efnis í vikunni. Hann segir núverandi lög of ströng.
Í frumvarpinu er tekið mið af tóbaksvarnarlögum í Danmörku og Svíþjóð en þar er leyfilegt að vera með sérstök reykingaherbergi á veitingastöðum.