Enski boltinn

Hvað gerðist hjá Benjani?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benjani fagnar einu marka sinna á tímabilinu.
Benjani fagnar einu marka sinna á tímabilinu. Nordic Photos / Getty Images
Mikil óvissa ríkir nú um meint félagaskipti sóknarmannsins Benjani frá Portsmouth til Manchester City.

Harry Redknapp, stjóri Portsmouth, sagði að félagið hafi fyrst gengið frá kaupunum á Jermain Defoe frá Tottenham eftir að Manchester City fullyrti að það félagið hefði gengið frá sínum kaupum á Benjani í tæka tíð.

Redknapp sagði að klukkan 23.55 í gærkvöldi hafi hann fengið símtal frá Manchester City þar sem honum var tjáð að félagið hefði gengið frá öllum sínum gögnum varðandi félagaskipti Benjani.

„Þá fyrst gaf Peter Storrie (framkvæmdarstjóri Portsmouth) grænt ljós á kaupin á Defoe. Við sendum okkar gögn vegna þessa og þetta stóð allt saman mjög tæpt."

Portsmouth náði þó að ganga frá kaupunum á Defoe fyrir níu milljónir punda.

En korter eftir miðnætti barst Portsmouth símtal frá starfsstöðvum ensku úrvalsdeildarinnar þar sem kom fram að hún hefði ekki mótttekið öll þau gögn sem þurfti til að ganga frá félagaskiptum Benjani.

Honum hafði seinkað á ferð sinni til Manchester og gat því ekki gengist undir læknisskoðun í tæka tíð.

„Frá okkar bæjardyrum séð gengu þeir frá öllum gögnunum í tæka tíð þannig að ég skil ekki hvað vandamálið er."

Ef ekkert verður af félagaskiptum Benjani gæti það varpað skugga á félagaskipti Defoe. Portsmouth ætlaði að nota þær sjö milljónir sem félagið átti að fá vegna sölunnar á Benjani til þess að borga upp í Defoe.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×