Enski boltinn

Óttast mjög um bróður Palacios

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wilson Palacios í leik með Wigan í síðasta mánuði.
Wilson Palacios í leik með Wigan í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images

Líkur eru leiddar að því að sextán ára gamall bróðir Wilson Palacios, leikmanns Wigan, hafi verið myrtur af mannræningjum.

Fyrir rúmum þremur mánuðum var Edward Palacios rænt af heimili sínu og hefur fjölskylda hans ekki séð hann síðan þá.

Fjölskyldan greiddi lausnarfé fyrir hann seint í janúarmánuði en eftir það hefur hún ekkert heyrt í mannræningjunum og ekkert af örlögum drengsins.

Lögreglan óttast nú um líf hans. „Málið er orði ansi flókið," sagði Francisco Murillo, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Hondúras þar sem fjölskyldan býr. „Við erum enn með sérstakt teymi sem vinnur að málinu en fjölskyldan hefur ekkert heyrt í mannræningjunum. Við höfum áhyggjur af því."

„Það gæti verið að drengurinn sé látinn en það hefur ekki fengist staðfest. Við vinnum enn að málinu og leitum af vísbendingum."

Wilson Palacios er miðvallarleikmaður sem var í láni hjá Birmingham í haust en eftir að Steve Bruce hætti hjá félaginu var ljóst að félagið myndi ekki kaupa hann.

En eftir að Bruce hætti hjá Birmingham tók hann við liði Wigan sem keypti Palacios þann 11. janúar síðastliðinn. Palacios var þá með samning hjá Club Deportivo Olimpia í heimalandi sínu en samdi við Wigan til þriggja og hálfs árs.

Þann 15. nóvember síðastliðinn birtist frétt á heimasíðu Birmingham þess efnis að búið væri að láta Edwin lausan. Það reyndist svo ekki vera rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×