Enski boltinn

United aftur á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn United fagna öðru marki Ronaldo í kvöld.
Leikmenn United fagna öðru marki Ronaldo í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United tyllti sér aftur á topp ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld með 2-0 sigri á Portsmouth.

Þá gerðu Everton og Tottenham markalaust jafntefli en heimamenn hreinlega óðu í færum í leiknum en náðu samt ekki að skora.

Cristiano Ronaldo skoraði bæði mörk United í leiknum og hefur nú skorað 19 mörk í ensku úrvalsdeildinni og 27 mörk í síðustu 28 leikjum sínum.

Manchester United - Portsmouth 1-0

1-0 Cristiano Ronaldo (10.)

2-0 Cristiano Ronaldo (13.)




Harry Redknapp stjóri Portsmouth valdi Noe Pamarat fram yfir Hermann Hreiðarsson í stöðu vinstri bakvarðar í kvöld en auk þess var Sol Campbell mættur á sinn stað í vörn liðsins á nýjan leik.

Þá lék Milan Baros sinn fyrsta leik fyrir Portsmouth í kvöld.

Alex Ferguson gerði nokkrar breytingar á sínu liði og hvíldi Ryan Giggs og setti Carlos Tevez á bekkinn.

Nemanja Vidic, Paul Scholes og Park Ji-Sung voru allir í byrjunarliði United í kvöld.

United byrjaði mun betur í leiknum og Scholes stjórnaði sóknarleik liðsins vel.

Það var þó Cristiano Ronaldo sem var hetja liðsins eins og svo oft áður er hann skoraði tvívegis í fyrri hálfleik með stuttu millibili.

Það fyrra með skoti af stuttu færi eftir að hafa spilað sig í gegnum vörn Portsmouth eftir laglegan samleik við Nani.

Það síðara kom svo beint úr aukaspyrnu og var ekki síður glæsilegt. Yfir veginn og í markvinkilinn nær. David James haggaðist ekki í markinu.

Wes Brown fékk svo gott tækifæri til að koma United í 3-0 en skot hans fór yfir mark Portsmouth úr góðu færi.

Nani fékk sama tækifæri í lok hálfleiksins en í stað þess að renna boltanum á Ronaldo sem var í mun betra færi ákvað hann að skjóta sjálfur en hann hitti ekki markið.

Það er of mikið verk að ætla að telja upp öll þau marktækifæri sem urðu til í síðari hálfleik en það er skemmst frá því að segja að ekkert mark var þó skorað.

Hermann Hreiðarsson kom inn á í hálfleik og komst vel frá sínu hlutverki.

Radek Cerny ver hér frá Andy Johnson. Jonathan Woodgate fylgist með.Nordic Photos / Getty Images

Everton - Tottenham 0-0

Jonathan Woodgate fór beint í byrjunarliðið hjá Tottenham en hann gekk til liðs við félagið nú í vikunni.

Hjá Everton var Leighton Baines í byrjunarliðinu þrátt fyrir að hann hafi átt við meiðsli að stríða að undanförnu.

Þessir tveir menn áttu svo eftir að koma við sögu en eitt besta færi fyrri hálfleiksins kom er Baines átti skot að marki Tottenham en Woodgate náði að koma í veg fyrir að það færi yfir línuna.

En Everton var mun nærri því að skora í fyrri hálfleik þó ekkert mark hafi komið.

Það sama hélt áfram í síðari hálfleik en án þess þó að Andy Johnson og félagar hjá Everton næðu að brjóta ísinn. Þeir fengu þó næg tækifæri til þess.

Allt kom fyrir ekki og máttu Tottenham-menn þakka fyrir stigið sem þeir fengu í leiknum í kvöld en að sama skapi mega leikmenn Everton naga sig í handabökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×