Enski boltinn

Sheffield United sló út Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Blaðra eða bolti? Luton Shelton var ekki í vafa.
Blaðra eða bolti? Luton Shelton var ekki í vafa. Nordic Photos / Getty Images
Þau óvæntu tíðindi urðu í lokaleik fjórðu umferðar ensku bikarkeppninnar að B-deildarlið Sheffield United sló út úrvalsdeildarlið Manchester City, 2-1.

Manchester City er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar en Sheffield United í fjórtánda sæti B-deildarinnar. Það eru því 26 sæti sem skilja á milli liðanna tveggja sem stendur í ensku deildakeppninni.

Sheffield komst yfir í leiknum með marki Luton Shelton á 12. mínútu.

Lee Martin átti fyrirgjöf frá vinstri þar sem Michael Ball, varnarmaður City, missti boltann frá sér og Luton Shelton skoraði á fjarstönginni.

Það var mikið af bláum og hvítum blöðrum í vítateig City á þessum tíma, eins og sést á meðfylgjandi mynd, og ekki útilokað að Ball hafi hreinlega ruglast á boltanum og blöðrunum.

Aðeins tólf mínútum síðar bættu heimamenn við öðru marki en Jonathan Stead var þar að verki með skoti úr vítateignum.

City náði að klóra í bakkann með marki varamannsins Daniel Sturridge. Markið var sérlega glæsilegt en hann fékk boltann eftir hornspyrnu, tók hann á hægra lærið og skaut knettinum í slána og inn.

En þótt markið væri glæsilegt dugði það ekki til og Sheffield United fagnaði góðum sigri og sæti í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×