Innlent

Fimm ár í fangelsi fyrir árás á félaga sinn

Robert Olaf Rihter var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir lífshættulega líkamsárás á félaga sinn. Við árásina notaðist Rihter við brotna glerflösku og sló hann fórnarlamb sitt ítrekað með henni þannig að hending réð því að ekki hlaust bani af.

Árásin átt sér stað á heimili fórnarlambsins í Reykjanesbæ þann 8. nóvember síðastliðinn. Rihter var við drykkju það kvöld og var orðinn verulega ölvaður þegar árásin átti sér stað.

Fórnarlambið, kunningi Rihter, sagðist fyrir dómi hafa verið farinn að sofa þetta kvöld þegar hann varð skyndilega var við hávaða og læti frammi. Þegar hann fór fram til að athuga hvað var á seyði fann hann Rihter í óðu skapi, brjótandi hluti og bramlandi. Þegar hann var beðinn um að hafa sig hægan réðst Rihter á félaga sinn með brotinni flösku sem hann hélt á í annari hendinni.

Þegar lögregla kom á vettvang lá fórnarlambið úti á götu fyrir utan heimili sitt í stórum blóðpolli. Hann var þá búinn að missa mikið blóð. Rihter neitaði sök í málinu en gögn málsins studdu ekki framburð hans. Þá studdi framburður vitna við frásögn fórnarlambsins.

Rihter var því fundinn sekur um tilraun til manndráps og dæmdur í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×