Enski boltinn

Ferguson: Var farinn að hafa áhyggjur

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segist hafa verið farinn að hafa áhyggjur af því að hans menn í Manchester United næðu ekki að skora gegn Reading í dag.

United liðið fór illa með fjölmörg færi sín í leiknum og vildu sumir meina að liðið hefði átt að skora miklu fleiri mörk en þau tvö sem láku inn í dag. Gestirnir höfðu 2-0 sigur, en Ferguson sagði sína menn ekki hafa verið nógu beitta.

"Við fengum slatta af færum í dag og ég var farinn að hafa áhyggjur af því að við næðum ekki að skora. Reading lék okkur heldur betur hafa fyrir þesu í dag og leikurinn var mjög opinn. Við náðum þó að skora á réttum tíma og landa sigrinum," sagði Alex Ferguson.

Steve Coppell hjá Reading var ósáttur við tapið og sagði lokatölurnar ekki gefa rétta mynd af leiknum.

"Við lögðum allt í þennan leik en þegar upp var staðið voru það hæfileikar Rooney og Ronaldo sem gerðu gæfumuninn. Við létum þá finna fyrir okkur og þó þetta líti út sem öruggur 2-0 sigur á pappírunum - var það alls ekki þannig í dag," sagði Coppell, en Reading fékk líka nokkur ágæt færi í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×