Enski boltinn

Enski í dag: United tók við sér í síðari hálfleik

Wayne Rooney skoraði fyrra mark United í dag
Wayne Rooney skoraði fyrra mark United í dag NordicPhotos/GettyImages

Sex af sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni í dag er nú lokið. Toppliðin þrjú unnu öll sigur í sínum leikjum, en þurftu að hafa mismikið fyrir því.

Manchester United heldur toppsætinu eftir 2-0 útisigur á Reading. United fékk mikið af góðum færum í leiknum en náði ekki að nýta þau fyrr en stundarfjórðungur var eftir.

Þá kom Wayne Rooney gestunum yfir með eftir sendingu frá Carlos Tevez og það var svo hinn eldheiti Cristiano Ronaldo sem innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartíma. 'Ivar Ingimarsson var á sínum stað í liði Reading en Brynjar Björn Gunnarsson lék ekki með í dag.

Arsenal var aldrei í vandræðum með Fulham og vann öruggan 3-0 útisigur. Emmanuel Adebayor skoraði tvö mörk með skalla í fyrri hálfleiknum og Tékkinn Tomas Rosicky tryggði sigurinn með þriðja markinu. Arsenal heldur öðru sætinu eftir sigurinn en Fulham er áfram í bullandi fallhættu í næst neðsta sætinu.

Chelsea var líka lengi að tryggja sér sigur á baráttuglöðum Birmingham-mönnum, en það var framherjinn Claudio Pizarro sem skoraði sigurmarkið seint í leiknum. Chelsea lék ekki sérlega vel í leiknum, en tryggði sér samt sigur eins og oft áður í vetur.

Portsmouth lenti undir 1-0 gegn Derby á heimavelli þegar Lewin Nyatanga kom gestunum óvænt yfir. Adam var hinsvegar ekki lengi í paradís og hinn magnaði Benjani skoraði þrennu fyrir Portsmouth og tryggði sínum mönnum sigur með sínu þriðja marki þegar aðeins 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth og spilaði 90 mínútur.

Robbie Keane fagnar 100. markinuNordicPhotos/GettyImages

100. mark Robbie Keane fyrir Tottenham

Tottenham lagði Sunderland 2-0 á heimavelli en heimamenn voru á hælunum lengst af í leiknum og varla hægt að segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður.

Aaron Lennon kom Tottenham yfir eftir innan við tvær mínútur og voru heimamenn sprækir á fyrstu mínútum leiksins. Eins og svo oft áður slakaði Tottenham á eftir markið og í síðari hálfleiknum var Sunderland miklu betri aðilinn í leiknum og hefði með öllu átt að jafna úr einhverju af færum sínum. Það var hinsvegar írski landsliðsmaðurinn Robbie Keane sem innsiglaði sigur Tottenham með marki í uppbótartíma - hans 100. mark fyrir félagið.

Loks skildu Blackburn og Middlesbrough jöfn 1-1 á Ewood Park þar sem Boromenn voru klaufar að vinna ekki sigur. David Wheater kom gestunum yfir í fyrri hálfleiknum, en eftir að Boro-menn fóru illa með nokkur góð færi í þeim síðari - refsaði Matt Derbyshire þeim með því að jafna fyrir Blackburn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×