Enski boltinn

Grétar er klár í æsta stuðningsmenn Newcastle

Grétar Rafn Steinsson fær verðuga eldskírn í ensku úrvalsdeildinni á morgun ef hann verður í byrjunarliði Gary Megson hjá Bolton þegar liðið sækir Newcastle heim á St. James´ Park. Það verður fyrsti leikur Newcastle undir stjórn Kevin Keegan.

Fastlega er reiknað með fullu húsi eða 53,000 áhorfendum á heimavelli Newcastle á morgun þegar Kevin Keegan stýrir liðinu í fyrsta sinn eftir að hann tók við af Sam Allardyce.

Grétar Rafn Steinsson hefur engar áhyggjur af æstum áhorfendum þeirra svarthvítu ef hann fær kallið frá Megson á morgun.

"Þetta er bara hver annar fótboltaleikur fyrir mér. Ég hef spilað á Amsterdam-Arena, ég hef spilað stórleiki á móti Ajax og úrslitaleik í bikarnum á móti Feyenoord. Þetta yrði þá ekki í fyrsta skipti sem ég spila fyrir framan marga áhorfendur," sagði Grétar í samtali við Bolton News í dag.

Ekki er talið ólíklegt að Grétar Rafn verði í byrjunarliði Bolton á morgun. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×