Innlent

Vöruskiptahalli minnkar um 13 milljarða í nóvember milli ára

Minnkandi vöruskiptahalli skýrist fyrst og fremst af auknum útflutningi.
Minnkandi vöruskiptahalli skýrist fyrst og fremst af auknum útflutningi. MYND/Vilhelm

Vöruskipti við útlönd í nóvembermánuði síðastliðnum reyndust óhagstæð um 2,5 milljarða króna en það er 13 milljörðum króna minni halli en í nóvember árið 2006.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að fluttar hafi verið út vörur um fyrir tæpan 31 milljarð króna og inn fyrir nærri 33,5 milljarða í nóvember. Tölur Hagstofunnar sýna enn fremur að fyrstu ellefu mánuði síðasta árs hafi verið fluttar út vörur fyrir tæpa 270 milljarða króna en inn fyrir rúma 353 og því reyndist vöruskiptahallinn um 84 milljarðar. Það er rúmum 50 milljörðum króna minni halli en á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2006.

 

Fyrstu ellefu mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruútflutnings 50 milljörðum eða tæpum 23 prósentum meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44 prósent alls útflutnings og útfluttar iðnaðarvörur voru 41 prósent útflutningsins. Var verðmæti þeirra rúmum 35 prósentum meira en árið áður. Aukningu útflutnings má einna helst rekja til aukins álútflutnings og aukinnar sölu á skipum og flugvélum.

Fyrstu ellefu mánuði ársins 2007 var verðmæti vöruinnflutnings einum milljarði eða 0,3 prósentum minna á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur varð í innflutningi á flugvélum og fjárfestingarvöru en á móti kom aukning í innflutningi á mat- og drykkjarvöru og annarri neysluvöru eftir því sem segir á vef Hagstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×