Innlent

Gagnrýna úthlutun lóðar í Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar hefur úthlutað verktakafyrirtækinu Garðamýri ehf. lóð þar í bæ sem metin er á 2,1 milljarð króna en þar á að byggja upp íþrótta- og heilsumannvirki. Minnihlutinn í bæjarstjórn gagnrýnir að verkið hafi aldrei verið boðið út.

Um er ræða 7 hektara lóð í Vetrarmýri í Garðabænum en lóðin er metin á 2,1 milljarð króna. Samkvæmt samninginum sem samþykktur var á fundi bæjarstjórnar þann 20. desember síðastliðinn fær verktakafyrirtækið Garðamýri ehf. byggingaréttinn á lóðinni en þar á reisa íþrótta- og heilsumannvirki, þar á meðal sundlaugagarð. Samningurinn var samþykktur með fyrirvara um að fyrirtækið sýni fram á fjármögnun verkefnisins. Þá fær Garðabær forkaupsrétt á sundlaugagarðinum.

Það var upphaflega Garðamýri sem lagði fram hugmyndina um byggingu íþróttamannvirkja á lóðinni en fyrirtækið hefur lengi haft augastað á svæðinu.

Steinþór Einarsson, oddviti minnihlutans í bæjarstjórn Garðabæjar, sagði í samtali við fréttastofu gagnrýnisvert að samningurinn hefði ekki verið boðin út. Þá telur hann einnig óeðlilegt að bæjaryfirvöld láti verktakafyrirtæki hafa jafnmikil áhrif á skipulag bæjarins eins og raun ber vitni.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, vísaði í samtali við fréttastofu þessari gagnrýni á bug. Benti hann á að bæjaryfirvöld hefðu lengið unnið með verktakafyrirtækinu að þróun svæðisins. Því hafi það verið eðlilegt að úthluta lóðinni til fyrirtækisins án útboðs. Þá benti hann ennfremur á að samningurinn hafi verið samþykktur samhljóða í bæjarstjórn og þeir fyrirvarar sem eru í gildi þýði að samningurinn komi aftur til umfjöllunar bæjarstjórnar áður en hann verður endanlega samþykktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×