Enski boltinn

West Ham náði stigi á Brúnni

Craig Bellamy skoraði fyrir West Ham
Craig Bellamy skoraði fyrir West Ham AFP

Stórliðin fjögur á Englandi máttu öll sætta sig við jafntefli í úrvalsdeildinni um helgina. Gianfranco Zola mætti með lærisveina sína í West Ham á gamla heimavöllinn í kvöld og náði 1-1 jafntefli gegn Chelsea.

Chelsea mistókst fyrir vikið að skjótast aftur á toppinn í úrvalsdeildinni og hefur hlotið 37 stig. Liðið er í öðru sæti á eftir Liverpool sem hefur 38 stig.

West Ham náði í mikilvægt stig í botnbaráttunni og ekki veitti af eftir lélegt gengi að undanförnu.

Það var vandræðagemsinn Craig Bellamy sem kom West Ham yfir í leiknum en leikmenn Chelsea vildu reyndar meina að Mark Noble hefði handleikið knöttinn í aðdraganda marksins.

Didier Drogba var ekki í byrjunarliði Chelsea í kvöld en leikur liðsins hresstist nokkuð þegar hann kom inn sem varamaður. Það var svo Nicolas Anelka sem jafnaði metin fyrir Chelsea.

Frank Lampard heimtaði vítaspyrnu undir lokin þegar hann var felldur af Lucas Neill en fékk ekkert fyrir sinn snúð. Carlton Cole fékk líka tækifæri til að stela stigunum fyrir West Ham gegn sínum gömlu félögum, en brást bogalistin.

Chelsea var meira með boltann í leiknum og hafði nokkra yfirburði, en lærisveinar Luiz Scolari eru eflaust svekktir að hafa misnotað tækifærið til að komast á toppinn.

Chelsea 1 - 1 West Ham

0-1 C. Bellamy ('33)

1-1 N. Anelka ('51)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×