Innlent

Eldur í fjölbýlishúsi í Breiðholti í nótt

Eldur kom upp í fjölbýlishúsi í Vesturbergi í nótt um klukkan hálffjögur. Allt tiltækt slökkvilið var sent á vettvang enda lagði töluverðan reyk frá húsinu á öllum hæðum. Reykkafarar fóru innn í húsið en íbúar voru beðnir um að halda sig úti á svölum. Átta íbúðir eru í húsinu og var skilaboðum komið til íbúa með gjallarhornum og í gegnum SMS skilaboð.

Fólkinu var síðan bjargað af svölunum með hjálp körfubíls en stuttu síðar uppgötvuðu slökkviliðsmenn upptök eldsins en þau voru í geymslu í kjallara. Í geymslunni voru bíldekk og ýmis eldsmatur sem útskýrir hve mikinn reyk lagði um allt húsið. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins þegar upptökin höfðu verið uppgötvuð. Fólk í nærliggjandi stigagöngum var einnig beðið um að halda sig innandyra og loka gluggum sínum.





MYND/Egill

Sjálfboðaliðar Rauða krossins komu hjólhýsi Rauða krossins á staðinn og gátu þolendur dvalið þar meðan á slökkvistarfi og reykræstingu stóð. Ekki var mögulegt fyrir íbúa hússins að snúa heim um nóttina og var þá farið í að finna gistingu handa þeim sem á þurftu að halda. Rauði krossinn útvegaði fjórum íbúum gistingu á gistihúsi en aðrir gátu komið sér í húsaskjól á annan hátt, svo sem hjá ættingjum. Þá tók Rauði krossinn tímabundið að sér hamstur í fóstur fyrir einn íbúann. Aðgerðum lauk klukkan 5.58.





MYND/Egill

Engum varð alvarlega meint af reyknum en nokkrir voru fluttir á slysadeild til frekari aðhlynningar. Íbúðirnar í stigaganginum eru hins vegar mikið skemmdar af völdum sóts og reyks og er óvíst hvenær íbúarnir geta flutt inn á ný.

Að sögn slölkkviliðsins er ekkert vitað um upptök eldsins að svo stöddu. Engin rafmagnstæki voru í geymslunni sem þykir þó benda til þess að líkur á íkveikju séu meiri en minni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×