Innlent

Íslenska rigningin

Siggi stormur skrifar
úrkomudreifingin á landinu er ákaflega mismunandi, raunar svo mismunandi að allt að áttfaldur munur er á úrkomumagni eftir landssvæðum.
úrkomudreifingin á landinu er ákaflega mismunandi, raunar svo mismunandi að allt að áttfaldur munur er á úrkomumagni eftir landssvæðum. Vísir/Vilhelm
Eftir langa þurrviðriskafla er hún alltaf kærkomin, gamla góða íslenska rigningin. Á hinn bóginn þekkjum við líka að hún getur verið þreytandi - stórrigningar og það jafnvel tíðar geta hreinlega gert væntingar okkar í sumarfríinu að engu.

Hér skulum við staldra við. Tilfellið er að úrkomudreifingin á landinu er ákaflega mismunandi, raunar svo mismunandi að allt að áttfaldur munur er á úrkomumagni eftir landssvæðum.

Skoðum fyrst hvar úrkoman á landinu er lang minnst eða minni en 400 mm á ári. Almennt má segja að þetta séu svæðin norðan stóru jöklanna okkar. Athygli vekja þó svæði eins og Húnavatnssýslurnar og landssvæði í nálægð við Mývatn sem fara í þennan flokk

Næst eru það svæði þar sem ársúrkoman er á bilinu 400-800 millimetrar. Meginhluti alls Norðurlands er í þessum úrkomuflokki. Svæði við botn Breiðafjarðar og einnig Borgarfjörður að hluta. Án efa verður að telja að þessi svæði hafi nokkra yfirburði á önnur með tilliti til úrkomumagns því í næsta flokki eru svæði með úrkomu á bilinu 800-1200 mm. Í þessum flokki er láglendið á Vestfjörðum, hluti Snæfellsness og Vesturlands, Reykjavík og Reykjanes og síðan láglendið á Suðurlandi. Þá eru það svæði með 1200-2000 millimetra úrkomu á ári. Kirkjubæjarklaustur er í þessu flokki, Austfirðirnir og hluti Reykjaness við Krísuvík og Snæfellsnes. Svæði með mjög mikilli úrkomu eða 2-3000 millimetra á ári eru Suðurausturlandið og svæðin sunnan jökla. Vík í Mýrdal fellur undir þetta úrkomusvæði. Úrkomusvæði með yfir 3000 mm á ári eru stóru jöklarnir okkar að undanskyldum Hofsjökli og síðan eru svæði á Hellisheiðinni sem eru í þessum úrkomuflokki.

Rétt er að nefna að hér er um úrkomumagn að ræða en ekki fjölda úrkomudaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×