Erlent

Grætur eftir að hafa tapað forsetaslag

MYND/AP

John McCain öldungadeildarþingmaður segist gráta hástöfum eftir að hafa tapað fyrir Barack Obama í forsetakosningunum.

John McCain hefur veitt sitt fyrsta sjónvarpsviðtal eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir. Hann kaus að gera það með því að mæta í kvöldþáttinn hjá Jay Leno. Aðspurður um hvernig honum liði eftir ósigurinn sagði McCain að hann svæfi eins og barn. „Ég sef í tvo tíma svo vakna ég og græt og svo sef ég aftur í tvo tíma,“ sagði þingmaðurinn og uppskar mikinn hlátur og lófatak.

McCain sagði einnig að daginn eftir kosningarnar hefðu hann og Cindy eiginkona hans fengið sér kaffibolla um morguninn en ekki lesið blöðin.

Á alvarlegri nótum sagði hann að því færi fjarri að Sara Palin bæri ábyrgð á tapinu. „Ég er stoltur af henni og þakklátur fyrir að hún skyldi bjóða sig fram með mér. Hún var fólki innblástur og er það ennþá,“ sagði McCain.

Hann vísaði á bug gagnrýni manna úr eigin herbúðum sem segja að Palin hafi verið honum fjötur um fót vegna yfirgripsmikillar vankunnáttu á heimsmálunum. Því var meðal annars haldið fram að Palin hafi ekki vitað að Afríka væri heimsálfa en ekki eitt ríki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×