Innlent

Framsókn sleit stjórnarsamstarfinu

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. Mynd/GVA

Framsóknarflokkurinn ákvað að slíta ríkisstjórnarsamtarfinu í vor, en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.Geir H. Haarde forsætisráðherra fjallar um endalok síðustu ríkisstjórnar í grein sem hann skrifaði um áramótin í Morgunblaðið. Fyrir kosningar hafi það legið fyrir af hálfu stjórnarflokkanna að halda áfram stjórnarsamstarfi fengju flokkarnir meirihluta. Það fengu þeir, en aðeins upp á einn mann.

Geir minnir á að daginn eftir kosningar hafi einn nýrra þingmanna Framsóknarflokksins sagt í viðtali að áframhald stjórnarsamstarfsins kæmi ekki til greina. Síðan segir Geir að formaður og varaformaður Framsóknarflokksins hafi á fimmtudag eftir kosningar komið á sinn fund og tjáð sér að ekki væri grundvöllur fyrir frekara samstarfi.

Það hafi sumsé verið Framsóknarflokkurinn sem tekið hafi ákvörðun um það að binda enda á 12 ára stjórnarsamstarf. Bæði Jón Sigurðsson þáverandi formaður Framsóknarflokksins og Guðni Ágústsson núverandi formaður og þáverandi formaður staðfestu þetta við Stöð 2 í dag. Það hafi þó auðveldað framsóknarmönnum ákvörðunina að óformlegar viðræður voru hafnar um stjórnarmyndun milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.

Samkvæmt traustum heimildum Stöðvar 2 mun formanni Sjálfstæðisflokksins lítt hafa hugnast að fara í ríkisstjórn með eins manns meirihluta á þingi, þar sem hann taldi sig ekki geta eða vildi ekki þurfa að reiða sig á suma úr hans liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×