Innlent

Verða fram eftir mánuðinum að gera við götulýsingu

MYND/GVA

Starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur verða fram eftir mánuðinum að gera við götulýsingu á höfuðborgarsvæðinu sem skemmdist mikið í óveðri um miðjan síðasta mánuð. Ekki liggur fyrir hversu mikið tjónið er en vitað er að það nemur milljónum.

Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur, hafa starfsmenn Orkuveitunnar unnið að viðgerðum á götulýsingu víða í borginni en mest hefur þó tjónið orðið í úthverfum. „Þar verður hvassara því þar er minni gróður en í eldri hverfunum og skjólið því minna," segir Eiríkur.

Tjónið hefur fyrst og fremst verið í götulýsingunni en í veðurhamnum fuku meðal annars fjórir ljósastaurar um koll og þarf að skipta um þá alla. Þá sprungu ljósaperur í fjölmörgum staurum og til að mynda duttu 14 staurar í röð út á Fífuhvammsvegi í Kópavogi. Eiríkur segir einnig að eitthvað tjón hafi orðið á jólalýsingu en starfsmenn Orkuveitunnar hafi lagt töluverða vinnu í að taka niður hluta skreytinganna fyrir óveðrið og setja upp svo aftur.

Eiríkur segir að viðgerðin á götulýsingunni standi fram eftir mánuðinum og fyrst þá komi í ljós hversu mörgum milljónum tjónið í óveðrinu nemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×