Íslenski boltinn

Leifur: Byrjuðum í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis.
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis. Mynd/E. Stefán
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, sagði að sínir menn gætu aðeins sjálfum sér um kennt fyrir tapið fyrir Grindavík í kvöld.

Grindavík vann Fylki, 1-0, í Árbænum. Alexander Veigar Þórarinsson skoraði markið á sautjándu mínútu.

„Við byrjuðum ekki leikinn fyrr en í seinni hálfleik. Það leiddi til þess að þeir voru komnir með forskot. Í seinni hálfleik keyrðum við yfir þá og áttum að klára eitthvað af þessum hálffærum sem við fengum," sagði Leifur.

Fylkismenn byrjuðu mjög rólega í leiknum og leyfðu Grindvíkingum að halda boltantum mikið.

„Við getum ekki leyft okkur að vera hlaupandi um allan völlinn í öllum leikjum þegar við spilum á þriggja daga fresti," sagði Leifur.

Fylkir hefur nú tapað fjórum leikjum í röð í deildinni en unnið sigra bæði í bikarkeppni karla og Intertoto-keppninni.

„Maður getur því miður ekki valið sér hvað sigrarnir koma en við þurfum að taka það sem við höfum gert vel í öðrum keppnum með í deildarleikina. Það var mikill munur á þessum leik og þeim í Lettlandi. Þá vorum við mun frískari og þá voru menn tilbúnir frá fyrstu mínútu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×