Íslenski boltinn

Boltavaktin á öllum leikjum kvöldsins

Fimm leikir fara fram í Landsabankadeild karla í kvöld þegar fjórða umferð deildarinnar hefst. Þeir verða allir í beinni lýsingu Boltavaktar Vísis og Fréttablaðsins. Hana má nálgast hér eða með því að slá inn slóðina visir.is/boltavakt.

Allir leikir umferðarinnar eru einkar áhugaverðir allir á sinn hátt en þó verður að segja að stórslagur FH og KR beri hæst auk þess sem Valsmenn vígja nýjan heimavöll sinn, Vodafone-völlinn, með því að taka á móti toppliði Fjölnis.

FH tapaði sínum fyrstu stigum í markaleik gegn Þrótti í byrjun vikunnar en leiknum lauk með 4-4 jafntefli. Þetta voru einnig fyrstu mörkin sem FH fékk á sig en vörn liðsins hafði verið sannfærandi fram að þeim leik. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig FH-vörnin heldur gegn KR sem hefur aðeins unnið einn leik af fyrstu þremur.

KR hefur reyndar ekki vegnað vel á móti KR undanfarin ár en það eru fimm ár síðan að KR vann FH í deildarleik. Reyndar hafa KR ekki unnið FH í deildarleik í Hafnarfirðinum síðan 1994.

Valsmenn hafa alls ekki virkað sannfærandi í upphafi mótsins en liðið hefur verið plagað af meiðslum og lent í miklum vandræðum vegna þeirra. Fjölnismenn hafa hins vegar leikið á als oddi og eru með fullt hús stiga á toppi deildarinnar. Í kvöld fá nýliðarnir alvöru prófraun, gegn Íslandsmeisturunum í langþráðum vígsluleik á Hlíðarenda þar sem Valsmenn hafa þar að auki talsvert að sanna fyrir sjálfum sér og sínum.

Viðureignir Keflavíkur og ÍA síðustu ár hafa verið æði skrautlegar. Allt hófst þetta þegar Hjörtur Hjartarson, þáverandi leikmaður ÍA, kallaði Guðmund Viðar Mete Tyrkjadjöful og náði svo hámarki þegar að Bjarni Guðjónsson skoraði frá miðju þegar hann ætlaði að senda boltann aftur fyrir endalínuna í svokölluðum "fair-play" aðstæðum.

Bæði lið hafa þó lítið viljað gera úr þessu og segja þetta allt gleymt og grafið. En það má vera alveg ljóst að taugar leikmanna verði þandar til hins ítrasta í kvöld.

Skagamenn hafa verið í miklum vandræðum með sóknarleikinn sinn en Keflvíkingar hafa verið duglegir að skora en líka fengið næstflest mörk allra á sig í deildinni. Liðið er þó enn með fullt hús stiga og vill sjálfsagt viðhalda þeim árangri í kvöld.

Fylkismenn hristu af sér hið margfræga slen í síðasta leik með 2-0 sigri á Val. Í kvöld tekur liðið á móti HK sem er á botni deildarinnar án stiga og mörgum hefur þótt liðið allt annað en sannfærandi. Fylkir þarf nauðsynlega að sigra í leiknum til að viðhalda góðu gengi sínu og stöðugleika sem liðið hefur skort undanfarin ár.

HK-ingar þurfa augljóslega einnig að fara að hala inn stig ef liðið ætlar ekki að festast í botnbaráttu allt tímabilið.

Þá mætast grannliðin í Laugardalnum, Fram og Þróttur, á Laugardalsvellinum. Fram tapaði síðasta leik sínum á Skipaskaga á sjálfsmarki en liðið hafði unnið fyrstu tvo leiki sína. Þeir vilja því sjálfsagt leiðrétta Skagaleikinn og endurnýja sigurgöngu sína.

Þróttarar virðast hins vegar vera á uppleið eftir 4-4 leikinn gegn FH en liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum sínum en varð svo fyrsta lið deildarinnar til að skora hjá FH.

Eitt er víst að það verður hörkuspenna á leikjum kvöldsins og þeir verða allir í þráðbeinni lýsingu á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins auk þess sem hægt verður að fylgjast með gangi allra leikjanna á sama staðnum, Miðstöð Boltavaktarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×