Enski boltinn

Drogba gæti verið áfram

Elvar Geir Magnússon skrifar
Didier Drogba spariklæddur.
Didier Drogba spariklæddur.

Didier Drogba segist ekki vera búinn að ákveða hvað hann gerir í sumar en segir vel koma til greina að vera áfram hjá Chelsea. Þessi sóknarmaður hefur sífellt verið orðaður við önnur lið eftir að Jose Mourinho hætti með Chelsea.

Samband Drogba og Mourinho var mjög náið. Drogba hefur verið orðaður við mörg lið, þar á meðal AC Milan, Inter, Barcelona og Real Madrid.

„Eftir síðasta deildarleikinn á Stamford Bridge hugsaði ég út í að hann gæti verið minn síðasti hér. En þannig líður manni alltaf eftir síðasta heimaleikinn," sagði Drogba í viðtali við tímaritið France Football.

„Eins og staðan er núna verð ég áfram hjá Chelsea en samningur minn rennur út 2009. Í október sagði ég að ég vildi fara frá félaginu. Á þeim tíma var ég mjög reiður en síðan átti ég minn besta kafla á tímabilinu," sagði Drogba.

„Fjölskyldu minni og mér líður mjög vel í London. Ég er nýbúinn að kaupa mér fallegt hús hérna. Ég hef aldrei útilokað Chelsea. Ég viðurkenndi bara vonbrigði mín með brotthvarf Mourinho. Nú er ég bara að íhuga hvað sé besta skrefið fyrir mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×